Ísland, Kaupþing, krónan, og breska heimsveldið.

Eins og flestir Íslendingar var ég stolt af því hvað íslenska bankakerfinu og fjármálamarkaðinum gekk vel. Allt í einu var maður farinn að heyra af því úr öllum áttum að eitthvert íslenska fyrirtækið hefði verið að kaupa svo og svo stóra hluti í fyrirtækjum í Englandi, á Norðurlöndunum, og svo fljótlega, um allan heim. Sko, þetta getum við, hugsaði ég og klappaði mér á öxlina fyrir að vera íslendingur, hluti af heild sem sýndi að víkingarnir voru ekki dauðir úr öllum æðum. Ó nei, síður en svo. Nú var auðurinn sóttur niður til Evrópu í friðsælla formi en áður, nú var ekki mikið um blóðsúthellingar og ofbeldisverk en fjármálavíkingurinn vissi það að peningana var best að sækja að utan og heim.

Í byrjun síðasta árs var oft spurt þegar til tals kom að ég væri íslensk, hvernig það stæði á því að við stæðum svona vel Íslendingar sem ekki áttum olíu. Ekki vorum við nema 300.000 talsins og ekki vorum við með mikinn iðnað. Hvernig stóðum við undir okkur, af hverju lifðum við. Tja, hugviti sagði ég oftast. Við erum auðvitað með landbúnað og fisk og álver og heitt og kalt vatn og svo ódýrt rafmagn, en það sem mestu skiptir er að við erum stór innan fjármálaiðnaðarins. Því það var iðnaður. Það var gert út á fjármálamarkaði heimsins, þjóðarskútan með seglin þanin og stefnan tekin með Glitnir, Kaupþing, Landsbanki, Baugur, og fleiri þekkt merki á seglunum sem þönd voru til hins ýtrasta svo hægt væri að komast lengra, hraðar, og fyrst af öllum. Aðrir skyldu vera með tærnar þar sem við vorum með hælana, enda snillingar í fjármálum, það sáu allir sem sjá það vildu. Áttum við ekki orðið allt sem vert var að eiga í Evrópu?

Það var ekki leiðinlegt að vera íslendingur og geta yppt öxlum og sagt, tja, við lifum á hugviti og fjármálaviti. Svo kom í ljós að vitið, eins og amma mín sagði, og alveg örugglega amma Davíðs líka sú margnefnda ágæta kona, var alls ekki í askana látið. Sumir hefðu átt að setjast niður og hugsa málin til enda, taka lífinu aðeins með ró og velta fyrir sér hvort það væri skynsamlegt að vera sífellt með allt í skuldum? Það er þrátt fyrir allt dálítið síðan að óðaverðbólgan hætti að fá að éta upp skuldir og eignir manna óáreitt og verðtrygging var sett á allt. Mín kynslóð ólst upp við það að gamla óðaverðbólgan var tamin og gengið fellt aftur og aftur og aftur og verðtrygging sett ofan á háu vextina okkar á öll lán. Við áttum sumsé að vita það að það er ekki til neitt sem heitir ókeypis lán. Mínir foreldrar og þeirra kynslóð fékk að finna það á eigin skinni að það var vont að þurfa allt í einu að fara að borga skuldirnar með vöxtum og vísitölu og vaxtavöxtum og verðtryggingu og verðbólgu og gengisfellingu og lítilli launahækkun og að lokum þjóðarsáttinni frægu. Þeirra kynslóð vissi að lán kosta.

Hvers vegna er það þá að við sem þjóð, þó ekki ríkiskassinn, höldum að við eigum að vera í skuld? Hvers vegna erum við alltaf á skuldafylleríi? Vantar kanski í okkur skuldaviðnáms gen? Það vantar áfengisgenið í Dani, þess vegna neyta þeir áfengis í óhófi, öfugt Japönum sem brjóta áfengið hratt niður í blóðinu og líður þar af leiðandi illa strax ef þeir drekka of mikið en ekki daginn eftir. Getum við fundið genið sem kennir góða meðferð fjár? Normenn virðast hafa meira af geninu en við, þeim gengur amk vel að spara yfirleitt. Það telst fráleitt að ætla að kaupa allt út á krít, þ.e.a.s. þangað til fyrir rúmu ári að skyndilega fór allt að verða fullt af auglýsingum um hagstæð og auðfengin neyslulán. “Langar þig til útlanda? Sæktu um hálfa milljón á netinu, svar fæst strax!” Þeir hafa sennilega séð að til að ná sama hraðanum í fjármálafylleríinu og Íslendingar þá yrði fólk að vera vaðandi í auðfengnum lánum með góðum vöxtum. Góðum fyrir bankana en ekki endilega fyrir þá sem eyddu aurunum í sólinni fyrir sunnan.

Sem Íslending þykir mér afskaplega sárt að sjá á eftir bönkunum. Bankinn minn, Kaupþing, hefur verið bankinn minn og hugsað um mig í gengum öll mín háskólaár og gengum íbúðakaup og fleira. Bankinn minn var alltaf á sama stað, með liðlegt og þægilegt starfsfólk sem sýndi manni að því var alls ekki sama um mig og mínar fáu krónur. Þar var mér látið líða eins og mikilvægum viðskiptavini. Líka þegar námslánin hrukku ekki til og leita þurfti annarra leiða fram að sumarvinnutímanum. Ég játa fúslega að hafa fyllst stolti og ánægju yfir velgengni bankans míns heima og heiman. Ég beið eftir því að þeir opnuðu venjulegan banka í nálægð við mig svo ég gæti flutt mig frá norska bankanum yfir í gamla góða bankann minn þrátt fyrir búsetu í útlöndum. Ég var traustur viðskiptavinur trausta bankans míns og vildi hafa peningana mína, launin mín og lán í bankanum mínum hvort sem var í Noregi eða á Íslandi.

Ég hef ekkert verið að fela það að ég er Íslendingur, leiðrétti strax fólk sem heldur að ég sé norsk, rétt skal vera rétt og engin ástæða til að láta fólk halda að maður sé eitthvað annað en það sem maður er. Þess vegna hef ég líka mikið verið spurð síðustu vikuna hvað sé að gerast á Íslandi og hvað sé að gerast með Glitni, Landsbankann, og Kaupþing. Hvað er að gerast með Ísland og England, hvað verður um innistæður fólks í þessum bönkum? Missa ekki allir aleiguna? Ég varð að endurtaka það oft á dag að þrátt fyrir það hvað fólk hefði lesið eða heyrt að þá væri Ísland ekki gjaldþrota. Fólk trúði því ekki heldur þegar ég upplýsti það um að íslenska ríkið hefði verið skuldlaust í fjölda ára (amk. þegar borið er saman við minn aldur) og að þrátt fyrir að engar væru olíuauðlindirnar hefðum við átt peninga “í bankanum”. Kannski ekki það heppilegasta sem mér hefur orðið á orði en eigi að síður, við vorum hreint ekki gjaldþrota.

Hvað á maður samt að segja við svona kringumstæður? Það eru allir vængbrotnir eftir þessar hamfarir. Mér hefur ekki liðið jafn illa yfir atburðum á Íslandi síðan snjóflóðin urðu á Súðavík og Flateyri og annars staðar á Vestfjörðum og Austfjörðum 1996. Þjóðarsorg. Þannig er líðanin núna og erfitt að vera ekki staddur heima hjá fjölskyldunni þegar þetta gengur yfir. Ég á samt gott, ég þygg ekki námslán frá Íslandi núna, ég er ekki háð fjármunum frá Íslandi, þvert á móti er ég í vinnu í Noregi og fæ laun í norskum krónum inn á reikning minn í norskum banka. Samanborið við alflesta landa mína hef ég það mjög gott. Hugurinn er sífelt hjá þeim sem heima eru eða þeim sem skyndilega eru gersamlega peningalausir í útlöndum með kort sem ekki virka og komast ekki einu sinni heim.

Sem Íslending sárnar mér gífurlega vanhugsuð, ógætileg, og óupplýst ummæli breska forsætisráðherrans og breska fjármálaráðherrans. Skyndilega var ég sem Íslendingur komin í hóp óvina breska ríkisins, óbótamanneskja, skuldasafnari og þorpari hinn mesti sem ætlaði mér að svíkja peninga út úr saklausum enskum borgurum. Fyrstu viðbrögð voru að menn væru ekki með fullum mjalla í breska verkamannaflokknum. Að þeir væru í sama klassa og forseti Bandaríkjanna og Sara Palin, skilji það hver sem hann vill. Næsta hugsun var að nú væru menn að reyna að kasta ryki í augu almennings heimafyrir og beina athygli þeirra frá vandamálum heima sem verkamannaflokknum hafa verið kennd um með því að finna syndasel sem almenningur gæti sameinast um að vera illa við og kenna um allt sem miður hefur farið. Mundi svo að nú er nýverið búið að velja nýjan borgarstjóra í London úr röðum íhaldsmanna, blátt blóð í æðum. Pólitísk sýndarmennska og ódýr auglýsingabrella er því sennilega það sem var Brown og Darling tilefni til að kasta skít í og yfir Íslendinga sem þjóð og einstaklinga.

Ég mun seint fyrirgefa þeim það hvernig komið var að málum varðandi Kaupþing í Bretlandi, að fjármálaeftirlitið skyldi í skjóli ímyndaðra deilna um Icesave nota sértæk lög, “hryðjuverkalögin” svokölluðu, til að fara ekki bara inn í eignir tengdar Landsbanka heldur til Kaupþings einnig og verða þess þannig valdandi að Kaupþing fór í greiðsluþrot. Þeir mega skammast sín allir upp til hópa. Þeir mega gera svo vel og biðja íslensku þjóðina alla afsökunar á offorsi og yfirgangi sínum, á því að hafa með ólögmætum hætti ráðist inn í alls óskylt fyrirtæki á þeim forsendum einum að það væri með starfsemi á sama vettvangi og að hún væri ÍSLENSK. Þeir leggja heila þjóð, heilt land í einelti með hótunum og ásökunum gegn ímynduðum sökum og hafa svo ekki einu sinni fyrir því að segja afsakið á eftir.

Ætla þeir kannski að ráðast inn á okkur aftur, taka eins og eins og eina Falklandseyjalotu á okkur til að tryggja úrslit í næstu kosningum heima? Þeir eru einu sinni búnir að ráðast inn á okkur þótt það sé ekki mikið rætt um það í dag vegna þess hvernig Heimsstyrjöldin síðari fór. Við buðum þeim ekki í te og gúrkusamlokur um kaffileytið. Þeir mættu bara hingað einn daginn óboðnir. Það er að vísu fúslega viðurkennt að af þrem kostum illum var sá skásti Bretland. Þýskaland eða Rússland á þessum árum hefði ekki verið neitt sérlega þægilegt fyrir okkur að búa við. Eigi að síður gátu þeir haft fyrir því að taka upp tólið og eiga við okkur orð “I say, dear chap, would you mind if we dropped over for tea and biscuits? We’ll need about a years supply…”

Segi það stundum í hálfgerðu gamni að síðan við hættum að leggjast í víking, höfum við bara farið í stríð tvisvar sinnum, þorskastríðin nánar tiltekið. Við höfum unnið í bæði skiptin og í bæði skiptin höfum við sigrað Breta. Sá svo í dag að misvitrir enskir bloggarar lögðu til að nú myndu bretar fara í víking til Íslands og veiða allan laxinn úr sjónum! Skildi þá hvers vegna ekki þurfti nema örfáa fiskidalla til að sigra breska heimsveldið í þorskastríðinu. Bring it on! Við getum rassskellt þá aftur ef þörf krefur.

Að lokum langar mig bara að segja, ég er stuðningsmaður íslensku krónunnar. Lengi lifi krónan.