Apple Crumble Pie og Gateau aux pommes

Uppáhalds eplakökurnar eða -bökurnar mínar eru annars vegar ensk Apple Crumble Pie og hins vegar frönsk Gateau aux pommes. Þegar ég á mikið af eplum sem eru farin að verða marin veit ég fátt betra en að henda í eins og eina eplaköku.

Hérna eru uppskriftirnar:

APPLE CRUMBLE PIE

 • 100 gr. hveiti
 • 100 gr. sykur
 • 100 gr. kalt smjörlíki
 • 4 græn epli

Ef ekki eru til græn epli má nota hvaða önnur epli sem til eru en bakan verður best ef eplin eru súr. Einnig má skipta út smjörlíkinu fyrir smjör.

 1. Hitið ofninn í 200 gráður.
 2. Skrælið eplin og skerið þau í bita. Raðið eplunum í botninn á eldföstu móti.
 3. Hveiti, sykri og köldu smjörlíki er helt í skál og skorið saman með hníf uns smjörlíkið er vel blandað saman við hveitið og sykurinn. Áferðin á að verða kornótt og því er mikilvægt að smjörlíkið/smjörið sé kalt og ekki við stofuhita.
 4. Jafnið hveitiblöndunni yfir eplin.

Bakan er sett í miðjan ofn og bökuð uns hún er orðin gullin að ofan. Borið fram með þeyttum rjóma eða vanilluís.

GATEAU AUX POMMES

 • 8 msk. hveiti
 • 6 msk. sykur
 • 2 egg
 • 100 gr. brætt smjör
 • 1 msk. lyftiduft
 • 4 epli

Í stað smjörs má að sjálfsögðu nota smjörlíki en kakan er best ef notað er venjulegt smjör. Einnig skyldi síður notaður matarsódi því hann er heldur bragðmikill.

 1. Hitið ofninn í 160 gráður.
 2. Eplin eru hýdd og skorin niður í báta.
 3. Þurrefnum er blandað saman í skál og bræddu smjöri hrært saman við þurrefnin ásamt eggjunum. Öllu hellt í smurt form.
 4. Eplunum er stungið ofan í deigið í forminum.

Kakan er sett í miðjan ofn og bökuð í 35 mínútur. Þessi kaka hentar bæði með kaffi og sem eftirréttur.

Kakan verður fallegri á borði ef eplabátunum er stungið ofan í hana eins og gert er ráð fyrir í uppskriftinni en einnig má skera eplin í bita eins og í Apple Crumble Pie og blanda saman við deigið rétt áður en hellt er í formið.

Njótið.