búin

Á mánudaginn skilaði ég loksins lokaritgerðinni og ég held svei mér þá að ég sé ekki lent aftur eftir léttinn og gleðivímuna sem altók mig um leið og ég hafði afhent öll 10 eintökin sem Háskólinn vill fá. Eftir 24 tíma lokasprett var hún loksins tilbúin, búið að setja síðasta punktinn og útbúa kort til að auðvelda væntanlegum lesendum, ef nokkrir verða, að sjá hvað verið væri að tala um og hvar á jarðkringlunni það væri staðsett.

Þegar heim var komið og þreytan farin að segja til sín, var mér bent á nokkrar klaufalegar villur sem slæðst höfðu með vegna þreytu og tímaleysis undirritaðrar. Meðal annars tók ég eftir því að titillinn á forsíðu var ekki alveg sá sami og titillinn í haus og að auki var ekki sami haus á oddatölusíðum og sléttum síðum… hmmmm Munurinn var ekki mikill, ég hafði snúið við tveim orðum sem voru sitthvoru megin við samtenginguna “and” þegar ég skrifaði titilinn á forsíðuna. Hitt var verra að ég hafði gleymt að stroka út síðasta hluta titilsins eins og hann var áður svo hann gæti orðið eins og hann átti að vera núna… jamm þetta hljómar dáldið snúið, en mér þótti aulalegt að vera með þrjár útfærslur af titli á ritgerðinni.

Ég var svo þreytt þegar mér var bent á þetta og tvær aðrar álíka klaufalegar villur að ég hafði ekki einu sinni orku til að stressa mig eða hafa áhyggjur af því að ég yrði dregin niður. Eiginlega var mér svo slétt sama af því að ég VAR BÚIN!!! Núna þegar ég er að komast úr gleðivímunni finn ég heldur meira fyrir því hversu aulalegt það er að láta svona villur komast framhjá manni, en svo ég vitni í mikinn speking, Lúlla letidýr nánar tiltekið “og.. æ mér er alveg sama.” ^_^.