Nú skal land byggja með nýjum lögum

Það fer öll orka í að fylgjast með fréttamiðlum þessa dagana. Flýtur Ísland eða sekkur? Fréttavefir BBC, MBL, RUV, NRK, og svo mætti lengi halda áfram, eru þaulskoðaðir og eftir áföll síðustu viku sem voru hvert öðru lygilegra að fylgjast með úr fjarlægð er spennufallið nánast jafn mikið sjokk og upprunalega sjokkið. Það skal viðurkennt strax að ég hafði ekki eytt allt of miklu púðri í það fram að þessu að fylgjast með því hvað var efst á baugi innan stjórmála, fjármála, og annara mála á Íslandi í gegnum fréttamiðlana. Átti nóg með mitt og hafði á sínum tíma fengið hálfgert ofnæmi fyrir fréttamennsku sem, að mínu áliti, var að mestu í formi gæsastöppu. Opnaðu góða gogginn svo við getum matað þig mótþróalaust. Það má vel vera að þetta hafi verið ósanngjarnt og jafvel fordómafullt af minni hálfu en eigi að síður gerðist það að ég hætti að fylgjast með fréttum nema endrum og eins og þá helst að ég fletti upp því sem fólki varð tíðrætt um. Á tímum offramboðs upplýsinga (vel matreiddra að vísu) eru það nánast helgispjöll og örugglega villutrú að fylgjast ekki með fréttum. Merkilega nokk, svo ég sletti norskunni, þá hafði ég enga slíka andúð á umræðupistlum og leiðurum á netinu.

Október 2008 hefur ekki verið eðlilegur mánuður á mína mælikvarða og var svo komið að það var lífsins ómögulegt að fá nætursvefninn án þess að fínkemba fyrst netið og lesa allt sem ég komst yfir um bankakrísuna. “Skítlegt eðli” sumra manna svo vitnað séu í löngu fræg orð ÓRG, og sakbendingar, ásakanir, fum og fjaðrafok fólks sem ekki var hluti af lausn vandamálsins á nokkurn hátt. Það fór allt norður og niður á einni viku á klakanum. Þrátt fyrir orð Clive Myrie um Ísland og “the essence of cool”, þá voru ansi margir sem ekki höguðu sér í samræmi við þau orð.

Við skulum bara segja það hreint út, það var alger skelfing fyrir litla þjóð sem þó er stærst og best í heimi miðað við höfðatölu ef aðspurð, að fá alla þrjá bankana í hausinn hvern á fætur öðrum. Að fá fáránlegar og óvinveittar yfirlýsingar Gordon Brown og beina lygi Alastair Darling í hausinn eins og kalda vatnsgusu í stað vekjaraklukkunnar gamalkunnu, var ekki til að bæta ástandið. En að þurfa að horfa upp á það dag eftir dag að stjórnmálamenn hlypu um eins og höfuðlausar hænur og kvökuðu í sífellu “Reka Davíð! Ísland í Evrópubandalagið! Krónan er ónýt! Sækja um lán hjá IMF!” aftur og aftur og í endalausum hring, var það sem var fáránlegast í öllu óðagotinu. Svo má fara að deila út ásökunum hægri vinstri ef maður vill, en ég er þeirrar skoðunar að við komumst ekkert áleiðs með því móti. Ef við ætlum okkur að skýla okkur á bak við ásökunarkór og einhverjar lausnir sem gripnar eru úr lausu lofti og blandað saman í einn hrærigraut án gagnrýni í þeim tilgangi einum að líta út fyrir að vera að gera eitthvað að gagni, þá erum við engu betri en Brown, Bush, eða Palin.

Við eigum að hætta að hlaupa í hringi og skæla. Við eigum að hætta að benda á þennan eða hinn og alla aðra en mig því ég kom auðvitað aldrei nálægt einu eða neinu og hafði að vit á að benda á hættuna fyrir löngu og er því ekki hluti af vandamálinu…. hljómar kunnuglega? Mér finnst eins og ég hafi heyrt þetta ansi oft upp á síðkastið.

Við eigum að hafa dug og þor til að segja það sem okkur finnst, ekki það sem við höfum heyrt tuggið ofan í okkur eða það sem er vinsælt að láta út úr sér. Við eigum að þora að hafa skoðanir og þora að berjast fyrir því að það verði einhverjar breytingar á Íslensku þjóðfélagi í kjölfar bankahrunsins. Við eigum ekki að sætta okkur við að láta teyma okkur eins og viljalausan múg í hina áttina í annan hring sem leiðir okkur ef ekki á sama stað þá á annan mjög líkan þeim fyrri. Við eigum að krefjast þess að þeir sem sitja á Alþingi kom nú með eins og eina nýja hugmynd og fari ekki í gamla sarpinn sem sennilega er orðinn úreltur hvort eð er í ljósi nýlegra atburða.

Við eigum ekki að hlaupa til og reka Davíð. Skal tekið fram strax að undirrituð er ekki og hefur aldrei verið kennd við bláa hvítflibba pólitík. Ef Davíð er vanhæfur þá má taka það í rólegheitum síðar, en ekki sem forsíðufrétt og opinber flenging. Það sæmir okkur ekki að fara þannig með opinberan starfsmann, hversu hátt settur sem hann kann að vera.

Við eigum ekki að hlaupa beint í IMF eins og heim til mömmu að láta kyssa á báttið því hættan er sú að við fáum ekki að fara aftur út að leika á eftir. IMF er ekki lausnin á okkar vandamáli. Það eru engar skjótar ódýrar og auðveldar lausnir á vandamálinu. Það þarf aga og hugvit og öðruvísi hugsun en við höfum tíðkað.

Evrópubandalagið er ekki lausnin heldur. Evrópubandalagið er hvorki betra né verra en það sem við höfðum áður, það er bara öðruvísi og mun stærra en við erum. Það er auðvitað gott að standa í skjóli annarra, sér í lagi ef maður er lítill, en við skiptum einfaldlega út okkar vandamálum fyrir önnur öðruvísi vandamál sem fylgja því að vera stór og svifaseinn og bundinn í klafa skriffinnskunnar. Svo má hver sem er meta hvor kosturinn er betri og mér er næst að halda því fram að þar fari smekkur og litaval fremst í fararbroddi. Evrópubandalagið getur ekki bjargað okkur úr krísunni, við ætlum að vera búin að koma okkur út úr þessum vanda eða að minnsta kosti vel á veg út úr honum, áður en innganga getur átt sér stað. Allt tal um Evrópubandalagsaðild er þar af leiðandi ekki uppbyggjandi í núverandi ástandi og einungis til þess fallið að kasta málum á dreif. Láta sem við séum að gera eitthvað á meðan við erum ekki að gera neitt því við vitum ekkert hvað við eigum að gera.

Að lokum, mér er sárt um krónuna. Ég væri ekki miðaldasagnfræðingur ef ég hefði ekki einhverja rómantík í beinunum. Ég vil ekki taka upp Evru til þess að taka upp Evru. Ekki Rúbluna heldur. Ég vil halda minni krónu og ef ekki ÍKR, þá ef myntbandalag er það sem er krafist, norrænnar krónu. Hversu sterkari yrðum við ekki í myntbandalagi með Norðmönnum, Dönum (Færeyingum og Grænlendingum - þeir eiga rétt á að vera með í þessari upptalningu hér), og Svíum? Að öðrum kosti bara með Norðmönnum, ef við fáum undanþágu frá að hafa Ólav konung á öllum seðlum og myntum - fáum að gera eins og Færeyingar og vera með okkar eigin útgáfu af gjaldmiðlinum, án stjórnmálatengslanna sem þeir eiga við Dani þó.

Nei við þurfum nýjar hugmyndir og nýjan hugsunarhátt. Hvers vegna má ekki gera eins og Viðskiptaráðherra sagði, sjá til þess að ríkið muni áfram eiga hluta í íslensku bönkunum þremur? Það yrði ekki nógu stórt eignarhald til að pólitískir pótintátar færu að ráða ríkjum þar eða að flokksskírteini þyrfti til að fá vinnu þar. Þar er ég ekki sammála Þorgerði Katrínu. Það eru ekki bara tveir fletir á málinu. Það gengur ekki að horfa á heiminn og okkar hluta af heimshorninu með slíkum gleraugum. Við verðum að sjá málin í þrívídd, snúa módelinu aðeins og athuga hvað þá kemur í ljós. Það er svo ótal margt sem er á milli öfganna og við viljum einmitt lenda þar. Það er engum hagsmunum þjónað með því að grípa til öfga. Ríkiseign bankanna hefur verið prófuð og það var ekki endilega besta lausnin. Ég er samt ekki sammála að men fari best með eigið fé eins og Pétur Blöndal talaði svo mikið um þegar bankarnir voru að lokum einkavæddir. “Fé án hirðis“. Það sjá menn nú bara af því hve skuldsettir margir eru sem þá er vel treystandi fyrir fjármunum innan þess fyrirtækis eða stofnunar sem þeir vinna hjá. Til að mynda gjaldkerar bankanna eða launastarfsólk og svo mætti lengi telja. Einkavæðing bankanna hefur líka verið prófuð og þótt vel hafi gengið lengi og menn hafi varla haldið vatni yfir öllum ósköpunum og fólk fyllst stolti í biblíulegum stærðum, þá sjáum við samt að þetta var ekki heldur besta lausnin.

Fyrirtæki sem keypt eru upp af starfsmönnum sínum, ekki endilega í fullri eigu þeirra en þar sem þeir eiga góðan hluta, eru oftast arðvænni en fyrirtæki þar sem starfsfólkið á engan eignarhluta. Þau fyrirtæki eru einnig oft betur rekin, að vísu er það einnig sagt um fyrirtæki sem konur reka samanborið við fyrirtæki sem karlar reka á þeim forsendum að konurnar taka síður eins miklar áhættur og karlarnir og þótt þau skili ekki eins miklum hagnaði fara þau mun síður á hausinn. Auður fjárfestingarfyrirtæki kom skyndilega upp í hugann… Dreifð eign í bönkunum með akkeri í þjóðareigu og ábyrgri og varkárri fjárfestingarstefnu ætti þá að geta hentað okkur ágætlega. Að vísu er ekki víst að starfsfólk bankanna taki það í mál á næstunni að eiga eina krónu í þessum fyrirtækjum, minnugt þess að hlutabréfaeign þeirra í þessum sömu bönkum hvarf sem dögg fyrir sólu í síðustu viku.

Hringamyndun skal ekki leyfa frekar en fyrr. Krossfiskar skulu ekki leyfðir. Mælist hér með að eignarhald félaga innbyrðis og í kross og í hvert öðru sé kallað krossfiskar eða krossfiskaeign til hægðarauka. Finnst það líka miklu skemmtilegra orð en langlokan sem annars þarf til útskýringar fyrirbærinu. Ég vil að skortsala verði með öllu bönnuð. Skortsala er í eðli sínu óheiðarleg. Það er ekkert heiðarlegt við það að hafa hag af því að öðrum gangi illa, sér í lagi þar sem það er marg reynt og sannað að þegar menn eða konur hafa hag af óförum annarra, þá vill það ansi oft fara svo að ófarir eru einmitt það sem viðkomandi fólk og fyrirtæki lenda í. Rétti nú allir upp hönd sem ekki sáu þessi orsakatengsl fyrir. Ég mælist til að Íslenskir ráðamenn taki af allan vafa um það að óheiðarleg vinnubrögð séu ekki bara óæskileg heldur ólögleg. Við getum svo staðið upp frammi fyrir heiminum og sagt að okkar réttlætiskennd sé einfaldlega of sterk til að þola slíkan ófögnuð sem skortsalan er.

Ég vil ekki að skattar á launafólk verði hækkaðir. Launafólk er rétt eins og mjólkurkýr, það kemur að því að nytin verður ekki aukin í kúnni og maður verður að sætta sig við það að hversu oft sem maður mjólkar hana kemur ekki meira úr spenunum. Skattar af launum, ef of háir, draga úr möguleika launafólks að bregðast við áföllum og breytingum á efnahag bæði þess sjálfs og þjóðarinnar í heild. Ég neita því að verða þræll alla mína æfi (ég er á leðinni heim um áramótin svo ég tel mig meðal skattborgara heima) vegna þess að bankarnir sem voru seldir einkaaðilum, fóru í þrot á meðan þeir voru í umsjá einkaaðila. Ég skal samt sem áður fúslega leggja mitt af mörkunum til að ná aftur upp framleiðni og tekjum í ríkissjóð.

Við verðum að sætta okkur við að þetta mun taka okkur nokkur ár. Kannski áratug, en við munum hægt og rólega vinna okkur upp úr þessu. Að trúa öðru er að leggjast niður og gefast upp. Þá getum við alveg eins bankað upp á Amalieborg og sagt við Margréti Þórhildi Danadrottningu, megum við koma aftur heim? Slátrið lambinu, týndi sonurinn snýr aftur.